Viðtal úr bókinni: Fullveldisróður í 40 ár – Sjómannafélag Ólafsfjarðar 1983-2023 eftir Atla Rúnar Halldórsson. Dreifing: Svarfdælasýsl forlag sf Mig dreymdi um að smíða fyrsta íslenska alvöru jeppann en það gekk ekki eftir. Hins vegar smíðaði ég fyrstu íslensku flökunarvélina fyrir bolfisk og um leið þá fyrstu í heiminum úr ryðfríu stáli og tæringarfríum efnum. Hugmyndir urðu til, þær þróuðust og voru prófaðar á Mánaberginu, í sínu rétta umhverfi á sjónum. Þannig segist Bjarma Sigurgarðarssyni frá um upphafið að því sem koma skyldi og varð alþjóðlega tæknifyrirtækið Vélfag þar sem hannaðar eru framleiddar fiskvinnsluvélar til notkunar á sjó og landi hérlendis og út um víða veröld. Þau hjón, Bjarmi og Ólöf Ýr Lárusdóttir, stofnuðu fyrirtækið, byggðu það upp frá grunni og stýrðu frá upphafi 1995-2023. Þegar Reynir B. Eiríksson var ráðinn framkvæmdasjóri en Bjarmi varð þróunarstjóri Vélfags. Enginn sér sín örlög fyrir og það á heldur betur við um Bjarma. Hann menntaði sig upphaflega sem bifreiðasmið og stefndi á starfsferil sem slíkur en leiðin lá óvænt á sjóinn, á frystitogarann Mánaberg frá Ólafsfirði sem félagsmaður í Sjómannafélagi Ólafsfjarðar. Þar um borð fóru hlutir að gerast sem enginn sá fyrir, heldur ekki Bjarmi sjálfur. Á yngri árum kunni ég Sjómannaalmanakið nánast utan að, var haldinn ólæknandi skipadellu og þekkti alla báta og skip landsmanna með nafni. Ég var sífellt að teikna skip og sé að sumar teikningarnar frá þessum tíma eru ansi líkar uppsjávarskipum nútímans. Ég fór fyrst á sjó tíu ára og var mikið til sjós til sautján ára aldurs, á handfærum og á rækjuveiðum með föður mínum, Sigurgarðari Sturlusyni. Af honum lærði ég margt sem nýttist mér afar vel síðar á starfsferlinum. Hann var mikill sjómaður og af vestfirskum sjómönnum kominn. Í ættinni voru margir sjómenn og fleiri sem tengdust sjónum, til að mynda afabróðir minn. Eiríkur Kristófersson skipherra hjá Landhelgisgæslunni. Pabbi vann um tíma hjá Björgun og ég var með honum í verkefnum á vegum Björgunar, meðal annars í Vestmannaeyjum og í Þykkvabæjarfjöru til að gera við nýjan bát sem þar strandaði. Síðan vann ég við að dýpka hafnir í tengslum við dýpkunarskipið Gretti, vann hjá Köfunarmiðstöðinni á bátum í hafntengdu brasi á Sundunum við Reykjavík og vann við dýpkun Vatnsfellsmiðlunar við Þórisvatn. Fleira gæti ég nefnt sem ég fékkst við þá og síðar í véla-, málm- og bílageiranum. Þau störf og verkefni áttu það sameiginlegt að bæta sífellt einhverju nytsamlegu við í reynslubankann. Af þeim reikningi gat ég alltaf tekið úr notadrjúga þekkingu og reynslu síðar á starfsferlinum. Ég lærði sem sagt bifreiðasmíði og fór svo utan í framhaldsnám hjá Malcolm Wilson í Bretlandi til að læra að smíða keppnisíþróttabíla. Þaðan lá leiðin heim á ný og ég fór að smíða bíla bæði fyrir rall- og torfæruakstur, þar á meðal sigursælasta rallýbíll Jóns Ragnarssonar. Sjálfur keppti ég líka í rallý og torfærum með góðum árangri. Reyndar gaf ég mér aldrei þann tíma sem ég gjarnarn vildi gera til að smíða og þróa keppnisbíl handa sjálfum mér! Svo lá leiðin til Ólafsfjarðar og þaðan á sjóinn. Hvernig atvikaðist það? Okkur bauðst að flytja til Ólafsfjarðar og við bjuggum þar hjá tengdaforeldrum mínum til að byrja með. Frystitogaraöldin var að ganga í garð og Ævar Þiðrandason, tengdafaðir minn, var þá netamaður á frystitogaranum Mánabergi. Hann hvatti mig eindregið til þess að sækja þar um pláss sem margir sóttust eftir, í júlí 1989. Ég varð badermaður á Mánabergi en vissi lítið út í hvað ég var að fara. Einu kynnin af fiskvinnsluvélum voru heimsóknir til vina og kunningja sem störfuðu í Baader í Ármúla í Reykjavík. Man að mér fannst þetta véladrasl eins óspennandi og hugsast gat, ætlaði mér ekki annað en að halda áfram að smíða bíla og þróa þá iðn á alla kanta. Fljótlega fór ég að fást við að bæta flökunarvélarnar frá Baader í Mánabergi með tæknilausnum við innstýringuna og með tiltölulega einföldum breytingum sem auðvelduðu viðhald og þrif að lokinni notkun. Svo barðist ég fyrir því að notaðir yrðu karfahausarar í stað hefðbundinna bolfiskhausara og fékk góðan hljómgrunn hjá framsýnum vaktformönnum mínum, Frímanni Ingólfssyni og Stefáni Veigari Gylfasyni. Lengi vel hausaði okkar vakt með karfahausara en hin vaktin hélt sig áfram við bolfiskhausarann. Á daginn kom að hráefnisnýtingin með karfahausaranum var talsvert betri, hann skemmdi síður það sem í gegnum hann fór og fækkaði þannig um leið flökunargöllum. Fiskurinn komst margfalt fyrr í kælingu af því karfahausarinn hausði, blóðgaði og saug innyflin innan úr. Sú aðferð skilaði í heildina mun betra hráefni og viðhaldskostnaður var brot af því sem fylgdi hinni vélinni. Áður voru oft staðnar frívaktir við að handblóðga og innyflin lágu áfram í fiskinum, stundum í langan tíma í miklu fiskiríi. Þá var jafnvel verið að blóðga steindauðan fisk. Hver fiskur var því meðhöndlaður í tvígang, fyrst blóðgaður og svo settur í Baader 161 vél til að hausa og taka innyfli með tilheyrandi skemmdum á kvið og hnakka. Skemmdirnar ollu svo vandræðum í flökunarvélinni, hráefnisnýtingin var mun verri en skyldi og gæði flakanna lakari. Við í áhöfn Mánabergs höfðum því frumkvæði að breytingum sem vöruðu bæði meðferð og nýtingu aflans. Ég fékk stundum vélsmiðjurnar í Ólafsfirði til að smíða einhverja smáhluti til að nota eða smíðaði þá sjálfur í ,,dauðum tímum“ um borð. Fannst betra að brasa eitthvað en sitja og horfa á gamlar upptökur úr sjónvarpi á frívöktum. Þarna fór boltinn að rúlla sem varð Vélfag? Já, hiklaust má segja það. Ég gat lagt saman þekkingu og reynslu úr keppnisbílageiranum annars vegar og sjómennskunni hins vegar til að átta mig á því hvað betur mætti fara í fiskvinnslubúnaði í skipum. Gleymum því svo ekki að vinnsluvélar í skipum þessa tíma voru hugsaðar fyrir fiskvinnslu í landi. Þær voru úr áli og tærðust hraðar á sjó en ella hefði verið. Eftir að við stofnuðum Vélfag, og tókum að okkur viðhald fiskvinnsluvéla fyrir útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki, blasti við allur kostnaðurinn sem til féll í viðhaldi sömu hlutanna í hvert einasta skipti sem skip kom til hafnar. Saman fór að aldur færðist yfir vélarnar, þær tærðust hraðar á sjó en ella hefði verið. Eftir að við stofnuðum Vélfag, og tókum að okkur viðhald fiskvinnsluvéla fyrir útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki, blasti við allur kostnaðurinn sem til féll í viðhaldi sömu hlutanna í hvert einasta skipti sem skip kom til hafnar. Saman fór að aldur færðist yfir vélarnar, þær tærðust og hráefnisnýtingin versnaði í takt við ástand búnaðarins. Alveg gekk fram af mér hve miklum fjármunum var varið í viðhald sem hægt var að spara sér með því að nota önnur efni í búnaðinn eða nálgast hlutina á annan hátt. Ég hætti til sjós þegar gömul augnmeiðsl tóku sig upp og ákvað að freista þess að starfa í landi. Þá spurði ég Gunnar Sigvaldason, framkvæmdastjóra Sæbergs hf. – útgerðar Mánabergs, hvort fyrirtækið hans myndi gerast viðskiptavinur nýs fyrirtækis sem við hygðumst stofna til að þjónusta fiskvinnsluvélar í Ólafsfirði. Hann svaraði því játandi um hæl og eigendur Sæbergs, Gunnar og Jón Þorvaldsson, hvöttu okkur jafnframt með ráðum og dáð og alla tíð síðan þá. Sæberg og Þormóður rammi hf., á Sigló sameinuðust síðar í Ramma hf. Gunnar var eiginlega framsýnni en við sjálf og brýndi fyrir okkur að hugsa stórt. Markaðssvæði Vélfags ætti að ná langt út fyrir Ólafsfjörð. Með sanni má því segja að Gunnar Sigvaldason sé guðfaðir Vélfags. Eigendur Sæbergs og Ólafur Marteinsson framkvæmdastjóri Ramma sýndu okkur áfram mikið traust með því að semja við Vélfag árið 2007 um að kaupa fyrstu fiskvinnsluvélaranar sem fyrirtækið framleiddi: fjórara flökunarvélar og átta hausara í nýtt skip Ramma. Sá samningur tryggði að Vélfag komst af frumþróunarstigi sem vélaframleiðandi inn í framtíðina. Vélarnar sjálfar rötuðu hins vegar ekki þá leið sem fyrirhugað var því skipasmíðastöðin fór á hausinn og nýju skipi Ramma var aldrei hleypt af stokkunum. Sumar vélanna fóru því í Mánaberg ÓF í júní 2009, í Sigurbjörgu ÓF í október 2009. Aðrar vélar seldi Rammi í skip í eigu HB Granda sem aftur varð kveikja að framtíðarsamningum þess fyrirtækist og Vélfags. Margir góðir sjómenn, fjöldi eigenda og starfsfólks í útgerðum og fiskvinnslufyrirtækjum og starfsmenn Vélfags frá upphafi hafa sömuleiðis lagt sitt af mörkum til að gera fyritækið að því sem það er orðið. Markaðssvæði Vélfags er veröldin öll og við seljum vélar um lönd og álfur. Það hefði meira að segja þurft að segja Gunnari Sigvalda það oftar en einu sinni og oftar en tvisvar forðum daga að slíkt gæti gerst og myndi gerast! Þeir sem vilja eignast bókina geti haft samband við Sjómannafélag Ólafsfjarðar eða bókahöfundinn Atla Rúnar Halldórsson, [email protected] / 899 8820
0 Comments
Leave a Reply. |
|